Færsluflokkur: Bloggar

Full mikið tekið upp í sig?

Las mér aðeins til um þessa rannsókn, og eins og ég bjóst hálfpartinn við þá er hún þannig hönnuð að hún getur ekki sannað að paracetamól sé orsakavaldur, væntanlega út af því að ekki er sýnt fram á að sé ekki undirliggjandi stýribreyta sem veldur auknum líkum á astma OG aukinni neyslu á paracetamól. Þetta hljómar fyrir mér nokkuð svipað og rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum, í Chicago minnir mig,  og sýndi fram á að aukin ísneysla eykur glæpatíðni. Nú, eða þangað til menn föttuðu að hækkað hitastig eykur árásargirni fólks, OG löngun þess í ís...


mbl.is Paracetamol getur orsakað astma hjá börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útilega um helgina

Að veiðumJæja, þar kom að því að við komum okkur í útilegu með Silju systur Snjólaugar, Arnari og stelpunum þeirra tveimur, Maríu Mist og Emmu Björt. Skruppum í Skorradal, komum í hálfskýjuðu veðri um miðjan laugardaginn, en svo létti smám saman upp, og endaði með að vera heiðskýrt og frábært veður um kvöldið, og svo var áframhald á blíðunni í dag. Þá var haldið í sund í Borgarnesi, snætt í þeim ágæta söluskála Hyrnunni, og svo haldið inn í Hvalfjörð. Þar skildu leiðir, og Arnar og Silja héldu í bæinn með tvær þreyttar stelpur, en við fórum í göngutúr í botni Hvalfjarðar, þar sem Stefán Steinar veiddi fullt af gúrafiskum í Botnsá, og við grilluðumst í 20 stiga hita.

Sem sagt mjög fín helgi, og góð byrjun á fríinu. 


Orðinn atvinnurekandi

Jæja, þá er maður formlega orðinn atvinnurekandi. Minn síðasti dagur hjá Calidris var í dag, og næstu mánuðir munu fara í að koma nýja fyrirtækinu, Spretti þróun ehf, á almennilegan skrið. Já, fyrir þá sem hafa áhuga, og ekki vissu, þá var ég að stofna fyrirtæki með tveimur félögum mínum, þeim Pétri Orra Sæmundssen og Petar Shomov. "Agile þróun, þjálfun og fræðsla" eru einkunnarorðin hjá okkur, og það er nákvæmlega það sem við viljum gera. Og byrjunin lofar nokkuð góðu, það virðist vera orðinn þó nokkur áhugi á aðferðum sem falla undir Agile hattinn, og þá sérstaklega Scrum. Við erum a.m.k. búnir að fylla námskeiðið með Ken Schwaber (4 sæti laus núna eftir að við fengum heimild til að fjölga um 10 í viðbót). Svo er bara að drífa sig á ráðstefnuna sem haldin er í samhengi við námskeiðið...

http://sprettur.is 

 

 


Falleinkun í siðferði

Valgerður sýnir hér af hverju Framsókn er ekki lengur við völd, verulegur skortur á siðferði. Efnahagur og stundarhagsmunir eru ekki allt. Það að gera rétt, og vera ábyrgur þjóðfélagsþegn, ekki bara sem íslendingur heldur sem jarðarbúi er ekki síður mikilvægt. Reynsla margra framsæknustu fyrirtækja heims hefur sýnt að virðing gagnvart einstaklingnum og umhverfinu ber gríðarlega ávöxtun til lengri tíma litið. Rio Tinto er hinn póllinn. Engin virðing gagnvart einstaklingum og umhverfinu, stundarhagsmunir og gróði skiptir öllu máli. 
mbl.is Valgerður Sverrisdóttir undrast ummæli iðnaðarráðherra um Rio Tinto
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuöryggi í Ríkisstjórn

Var glaður á laugardagskvöldið, þar til ég leyfði mér að sofna um hálf eitt. Vaknaði aftur við vondan draum um 4 aðfaranótt sunnudags. Og sá vondi draumur fór því miður ekki í burtu. Nú er bara spurningin, hversu mikið sama er forystumönnum Framsóknar um flokkinn, og hversu mikið þrá þeir völd, atvinnu og síðast en ekki síst, hærri eftirlaun. Kemur í ljós á næstu dögum.

Um Ríkisborgararétt

Hef aðeins fylgst með umræðunni um mál tengdadóttur umhverfisráðherra, og meðal annars sá ég viðtal Helga Seljan við hana. Annað hvort er Jónína fyrsta flokks lygari, eða hún er að segja sannleikann. Ég er á því síðara. Ég held að hún hafi ekki "kippt" í neina spotta. En ég held líka að hún hafi ekki þurft þess. Það var nóg að nafnið hennar var tengt þessari ágætu stúlku til að nefndarmenn í allsherjarnefnd sæju það að þarna var einkavinur tengdur málinu sem þurfti á sérstakri fyrirgreiðslu að halda. Því það er nákvæmlega menning sjálfstæðis og framsóknarmanna. Þeir sjá um sína. Þeim er nokk sama um grundvallarreglur lýðræðisþjóðfélags, nema rétt þeim sem duga til að halda þeim að kjötkötlunum.

Það er nákvæmlega þessi hugsun sem réði ferðinni þegar Davíð hét einkavini sínum G.W.Bush stuðningi í hans málum. Og sá greiði gagnaðist nákvæmlega jafn lengi og Davíð í embætti. Sama hugsun réði ferðinni þegar sjálfstæðismenn á Suðurlandi kusu Árna nokkurn Johnsen í annað sæti í prófkjöri. Árni hefur alltaf verið góður í að sjá um sína, hvaða máli skiptir það þó maður geri smá  tæknileg mistök?


Darren Dalcher - Reflections on Agile Project Management

Fór á ágætis fyrirlestur í dag með Darren Dalcher um Agile project management. Hann minntist meðal annars nokkuð mikið á XP, og það í þó nokkuð jákvæðu ljósi. Reyndar var mælingin mest LOC, sem ég er nú ekki beint hrifinn af, en jákvæð umfjöllun eigi að síður.

Hann kom aðeins inn á "agile project failures". Hann nefndi m.a. kerfi þar sem var þróað rosa fínt kerfi til að taka við pöntunum á netinu, kerfið fór í gang með pompi og prakt, og keyrði bara fínt. Nokkru síðar spyr einhver yfirmaður hvernig gangi með nýja kerfið. Jújú, gengur fínt, komnir með nokkur þúsund pantanir. "Já, og hvað erum við að gera með þær"?? Og varð fátt um svör, því það hafði að mestu leyti gleymst sá partur að það þyrfti að uppfæra kerfin/ferlin sem unnu úr pöntunum.

Það sem gerist þarna er að menn týna sér í tæknilegum kröfum, líklega í þessu tilfelli skilgreindar af fólki sem eingöngu hefur með pantanir að gera. Menn gleyma viðskiptalegu kröfunni, sem er að afgreiða sem flestar pantanir sem hraðast. Það er ekki nóg að taka við pöntunum, það þarf að afgreiða þær til viðskiptavina. 

Þetta kemur inn á eitt sem ég hef verið að tala um í nokkurn tíma, og kemur úr Straumlínu hugbúnaðarþróun (Lean Software Development), og það er þörfin á að gera samninga í kring um viðskiptaleg markmið í stað tæknilegra krafna. Eitt af því sem er afar undarlegt við að gera samninga í kring um tæknilegar kröfur, er að slíkar kröfur eru augljóslega bundnar af þekkingu og hugmyndaflugi þeirra sem þær skrifa. Ennfremur, þá eru þær yfirleitt skrifaðar miðað við stöðu tæknimála þess tíma.

 Með öðrum orðum, þá tekur þessi aðferðafræði ekki tillit til þess að 1) eftir því sem þróun á hugbúnaði heldur áfram, koma nýjir tæknilegir möguleikar í ljós og 2) þekking þeirra sem þróa kerfið verður mjög fljótlega mun dýpri heldur en þeirra sem skrifuðu upprunalegu kröfurnar, sem getur í mörgum tilfellum leitt nýjar og betri leiðir að viðskiptamarkmiðinu í ljós. Þetta gerist hins vegar ekki nema þeir sem vinna að hugbúnaðarþróuninni VITI hvert endanlega markmiðið er. Það er, viðskiptalega markmiðið. Hitt skiptir í raun afar takmörkuðu máli þegar öllu er á botninn hvolft.

 


Vélin að hökta í gang

Það virðist vera að vöðvavélin sé að hökta í gang aftur. Eftir leiðindavetur meiðsla og pesta, þá gerði ég fína ferð á Esjuna í gær, Laugardag, með félögum mínum í Calidris Alpina. Fórum upp á Kerhólakamb og niður Þverfellshornið, samtals um 11 km skv GPS tracker. Smá harðsperrur í morgun, en hafði mig samt út og skokkaði 6,5 km. Það er meira en í langan tíma. 17km að baki þessa helgina, ásamt 800m hækkun/lækkun. Nú er bara að fara ekki af geyst af stað, eins og hefur verið mín von og vísa í vetur...

 

 


Að berjast á heimavelli andstæðinganna

Það vita allir sem koma nálægt íþróttum að maður vill síður spila á heimavelli andstæðinganna. Þessa dagana virðist vera að stjórnarandstaðan hafi ekki áttað sig á þessum einföldu sannindum. Að heyja kosningabaráttu mót núverandi ríkisstjórn hamrandi á "hagstjórnarmistökum", er nákvæmlega að gera þetta. Ef stjórnarandstaðan hefur veikleika einhverrstaðar, og ríkisstjórnin styrkleika, þá er það á sviði hagstjórnar og fjármála. Það að ætla í kosningaslag á þessum forsendum er því í besta falli að taka slaginn á heimavöll andstæðinganna. Í versta falli er það eins og skæruliðasveit sem fer í opna orrustu á móti Bandaríkjaher. 

En hagstjórn er ekki allt þegar kemur að stjórna landinu. Rétt eins og peningar eru ekki allt þegar kemur að lífshamingju, þá eru þeir það ekki heldur á þessu sviði. Siðferði skiptir til dæmis heilmiklu máli. Framsýni á það sem skiptir máli til lengri tíma litið skiptir máli. Og þarna eru hinir veiku punktar ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórnar sem telur hagvöxt allt sem skipti máli. Ríkisstjórnar sem ennþá styður innrás BNA í Írak. Ríkisstjórnar sem skipar hæstaréttardómara úr einkavinahóp sínum burtséð frá hæfni.  Stjórnmálaflokkur sem kýs Árna Johnsen í nokkuð öruggt þingsæti sýnir hvað það er sem skiptir máli þar á bæ. Siðferði er aukaatriði. Að vera vinur vina sinna er aðalatriði. Engin furða að hugtakið "einkavinavæðing" sé orðið svona sterkt hugtak.

Það telst kostur að eiga síðari leik á heimavelli. Kannski er það áætlun stjórnarandstöðunnar. Ég vona það þeirra vegna. Og siðferðisins vegna. Ríkisfjármálin eru í nægilega góðri stöðu til að þola vinstristjórn í svo sem eitt kjörtímabil. Hver veit, þau gæti komið á óvart, einbeitt í því að reka af sér slyðruorðið á þessu sviði. Siðferðismálin eru hins vegar ekki í nægilega góðri stöðu til að þola þessa ríkisstjórn í eitt í viðbót.


Að halda sér á tánum

Er vont fyrir langhlaupara. Þeir vilja halda sér á hælunum sem mest, þar sem það að hlaupa á tánum er mun erfiðara fyrir stoðkerfið, svo sem hásin og kálfa, og krefst meiri orku en hitt, og slíkt er dýrt í langhlaupum. Í spretthlaupum gildir hins vegar að halda sér á tánum, þar sem þá þarf að nýta alla vöðva líkamans sem mögulega geta stuðlað að auknum hraða.

Nú eru hlaup nokkuð góð líking fyrir lífið almennt séð. Sá nýlega á dagatali frá Glitni (sjálfsagt að undirlagi forstjórans sem er orðinn hlaupafíkill virðist vera) þá samlíkingu að lífið væri eins og langhlaup. Ég er nokkuð sammála því, enda langhlaupari í dvala sjálfur. Hins vegar vilja leynast spretthlaup innan um. Að skipta um húsnæði, að eignast barn, að missa vinnuna, os.frv. veldur því yfirleitt að menn taka á sprett, leita nýrra möguleika, og enda á nýjum stað í lífinu. Þá tekur yfirleitt við skokkhraðinn aftur. Og þeir sem geta ekki skokkað, þeir ganga. Og þeir sem geta ekki gengið, nú þeir standa í stað.

Í bókinni "Leading Change" sem ég hef minnst á áður, er talað um hversu mikil áhrif stöðugur vöxtur hefur á lífsleiðinni. Dæmi er tekið af tveim manneskjum, önnur sem vex í "getu" um 1% ári, og hin sem vex um 6% á ári. Munurinn er kannski sá að fyrri manneskjan finnur sér stöðuga vinnu hjá traustu fyrirtæki, er bara nokkuð hamingjusöm, og hefur enga ástæðu til að ýta sér áfram. Eða, hefur meiri áhyggjur af því að halda sinni stöðugu vinnu frekar en að þróa sig sem persónu og vinnukraft.

Hin manneskjan stofnar kannski fyrirtæki, það fer á hausinn, fer að vinna hjá frumkvöðlafyrirtæki, fer í frekara framhaldsnám, fer að vinna hjá öðru fyrirtæki, það fer á hausinn, fer að vinna hjá öðru fyrirtæki, og er stöðugt að leita nýrra til að gera hlutina betur og hraðar, vegna þess að í þessu umhverfi er það einfaldlega nauðsynlegt.

Ef þessi munur helst í 30 ár, þá er orðinn margfaldur munur á getu þessara tveggja einstaklinga. Nánar tiltekið u.þ.b. 400%. Að sjálfsögðu er það huglægt hvað er vöxtur, í þessu samhengi er verið að beina sjónum að getu fólks til að reka/stjórna/leiða fyrirtæki. Í þessu samhengi, þá ætti að vera ljóst það það er gríðarlega mikilvægt að geta skokkað frekar en gengið. Og því hraðar sem menn skokka, því lengra komast menn á lífsleiðinni. Spretthlauparar eiga engan séns í langhlaupara ef þeir þurfa að ganga eða jafnvel stoppa á milli spretta.

Nú, boðskapurinn er sá að það skiptir ekki öllu máli hvar þú byrjar. Það sem skiptir meira máli á heilli æfi, er hversu hratt þú skokkar.

  

20100100
21101106
22102112
23103119
24104126
25105134
26106142
27107150
28108159
29109169
30110179
31112190
32113201
33114213
34115226
35116240
36117254
37118269
38120285
39121303
40122321
41123340
42124360
43126382
44127405
45128429
46130455
47131482
48132511
49133542
50135574

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðlaugur Stefán Egilsson

Höfundur

Guðlaugur S. Egilsson
Guðlaugur S. Egilsson
Guðlaugur Egilsson er tölvunörd með gráðu og smá áhuga á pólitík. Síðastliðin ár hefur hann líka sést hlaupandi á ýmsum stöðum, og vonast til að áframhald verði á því. Hér gætu því birst í bland hugleiðingar um líðandi stund og pælingar um hugbúnaðargerð, hlaup og tæknimál. 
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • ...gulli_small
  • IMG_9379

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband