Fjármálastormurinn - rót vandans?

Nýlega fór ég inn á síðu sem heitir einfaldlega "Crash Course", þar sem náungi að nafni Chris Martensson setur fram ákveðna sýn á hagkerfi Bandaríkjanna, og þar með í ákveðnum skilningi á hagkerfi heimsins, þar sem lang stærstur hluti hins hnattræna hagkerfis er byggt upp á sömu grunnreglum. Mér finnst hlutirnir settir fram þarna með býsna sannfærandi hætti, hef a.m.k. ekki heyrt neinn gagnrýna það sem þarna er sett fram með neinum rökum.

Í umræðunni um hrun íslenska bankakerfisins hefur myndlíkingin þar sem Íslandi er líkt við skip á stórsjó, sem liggur nú strandað í brimskaflinum, mikið verið notuð. Hugmyndin sem ég kom með út úr því að taka þennan "Krass kúrs" í hagfræði, er sú að þessi myndlíkinging um fjármálafárviðri sé nokkuð djúp, og sé nýtileg þegar menn fara að grafast fyrir um uppruna slíkra hamfara.

Svo ég útskýri aðeins betur hvað ég á við, þá eru aðstæðurnar sem búa til alvöru storma nokkuð vel þekkt, það er hita og rakamunur milli landsvæða sem eru eldsneyti storma, hvort sem það eru hitabeltis-fellibyljir sem myndast við miðbaug, skýstrokkar sem myndast á meginlöndum þegar heitir og kaldir loftmassar hittast, nú eða lægðir yfir Íslandi sem myndast á mörkum heimskautssvæða og tempraða beltisins.

Fjármálastormar, einnig þekktir sem efnahagsbólur, myndast á hinn bóginn þegar mikill mismunur myndast á milli væntra verðmæta í framtíðinni, í formi skulda (hiti), og raunverulegra verðmæta, þ.e.a.s. raunverulegrar getu fyrirtækja til að búa til verðmæti (kuldi). Þegar nægilegur munur er orðinn til staðar, þá fara vindar að blása um fjármálakerfið, í þessu tilfelli byrjuðu vindarnir að blása í kring um undirmálslánin í BNA og skuldabréfavafningana svokölluðu. Þegar vindarnir byrja, þá feykjast um koll hinar ýmsu spilaborgir, vindurinn magnast enn frekar og endar í "fullkomnum stormi" á stað þar sem Íslenska bankakerfið var statt á óheppilegum tímapunkti sem flotaforinginn Davíð Oddsson stýrði því á, með næstráðandanum Geir H. Haarde. Skipstjórar bankanna áttu að sjálfsögðu sinn þátt í þessu með því að vanmeta afl stormsins, og fullyrðingum að byrðingar þeirra skipa væru nægilega traustir til að standast hann. En á endanum er það flotaforinginn sem ber ábyrgð að því ef flotinn sekkur.

Hvernig verður þessi hitamunur til?

Blekkingar eru hluti af kerfinu. Að segja ekki allan sannleikann eru blekkingar, og stór hluti af viðskiptakerfi heimsins hefur byggst á því að menn haldi að sér spilunum sem þeir hafa, til að geta hámarkað eigin hagnað, sem er þá þar með á kostnað mótaðilans, og byggir á vanþekkingu hans. Með öðrum orðum, byggir á því að blekkja hann. Verulega stóran hluta orsakavalda þessa fjármálastorms má held ég rekja til þessa kerfislæga vandamáls. Upphaf stormsins rekja a.m.k. flestir til hinna margfrægu undirmálslána sem var pakkað inn í svokallaða skuldabréfavafninga eins og ég kom áður inn á, þar sem betri skuldabréf voru notuð til að gera þessi "eitruðu" lán að sölulegri vöru. Sölumennirnir vissu alveg hvað þeir voru að gera, öðru vísi hefði þessi vara ekki verið fundin upp. Þeir sem keyptu, voru hins vegar blekktir. Í samningunum var líklega nóg til að uppfylla bókstaf laganna, en sagt á nægilega loðinn hátt til að kaupendur áttuðu sig ekki.

Annað nýlegra og nærtækara dæmi um blekkingar með því að segja ekki allan sannleikann, felst í upplýsingagjöf bankanna um lán til starfsmanna. Ég þekki reyndar ekki til þessa máls nægilega vel til að fullyrða það, en ég tel næsta víst að samningar um þessi kaup hafi verið trúnaðarmál milli banka og starfsmanna. Í bókum bankanna voru þessi lán skilmerkilega talin upp með öðrum lánum, en láðist að segja frá því að tryggingar voru ekki sambærilegar. Þetta telja sumir að sé klárt lögbrot, en látum það liggja milli hluta. Ástæðan fyrir því að bankarnir komust lengi upp með svona hegðun (hvort sem hún var vísvitandi eða ekki) tel ég vera þá að samningar þeirra um þessi mál voru trúnaðarmál, og því ekki miklar líkur á því að þetta upplýstist, fyrr of seint.

Nú er ég enginn sérfræðingur á þessu sviði, en ég hef á tilfinningunni að veruleikafirringin og mismunurinn sem var búinn að myndast á milli raunverulegra verðmæta í umferð, og pappírspeninga (orkubilið sem veldur storminum), sé að verulegu leyti orsökuð af áralöngum, uppsöfnuðum blekkingum í formi samninga á milli alls kyns aðila, þar sem allir eru að reyna að blekkja næsta aðila passlega mikið til að halda sig á lagalegu mottunni, en samt nóg til að kreista út aðeins meiri hagnað. Á leiðinni fara menn að trúa stórum hluta af þessum blekkingum, þar til heildarbilið yfir í raunveruleikann verður of mikið, og "fullkominn stormur" myndast, og kerfið leiðréttir sig. Með tilheyrandi ólgusjó, þar sem ekki borgar sig að vera í mesta stormhamnum.


Hvernig fjarlægjum við rót þessa vanda?

Hvernig er hægt að leysa svona mál? Ég ætla að varpa hér fram nokkuð róttækri hugmynd sem ég tel að myndi a.m.k. setja hindrun í veg fyrir myndun svona ástands. Hún er einfaldlega sú að alla bindandi samninga milli lögaðila verði að birta opinberlega, í auðleitanlegum gagnagrunni. Hvort sem það er á milli fjármálastofnana um skuldabréfavafninga, milli fyrirtækis og starfsmanna um hlutabréfakaup, milli smásala og birgja, ríkisfyrirtækja og orkukaupenda um kaup á rafmagni, einstaklinga eða fyrirtækja um styrki til pólitískra hreyfinga, eða fólks á milli um húsnæðiskaup. Hverjar væru afleiðingarnar af þessu?

    * Algert gagnsæi á fjármálakerfinu og verðmyndun
    * Samningar væru sýnilegir öllum hagsmunaaðilum
    * Gagnrýnar raddir, eins og hagfræðiprófessorar sem vöruðu við spilaborginni og storminum í mörg ár, hefðu raunveruleg gögn til að byggja málflutning sinn á, ekki bara kenningar og uppsafnaðar tölur.
    * Hægt væri að greina orsök vandamála i fjármálakerfum utan frá og grípa inn í með tímanlegri hætti
    * Líkurnar á uppsafnaðri blekkingamynd myndu minnka verulega, þar sem öll púslin væru sýnileg, í stað þess að vera falin í skjalaskápum undir "Trúnaðarmál" stimpli eins og er normið í dag.


Hverjir væru ókostirnir?

    * Erfiðara væri að nýta sér leynilega þekkingu sem samkeppnisforskot. Samkeppnisforskot þarf að byggjast á því að vera einfaldlega betri en næsti aðili. Þó þetta sé ókostur fyrir einstaka aðila, þá má færa rök fyrir því að þetta væri kostur fyrir samfélagið í heild, þar sem þekking myndi dreifast hraðar. Þá mun eflaust einhver segja að þetta myndi drepa framtakssemi einstaklingana þar sem þeir hefðu ekki hag af því að þróa nýja þekkingu. Þá vil ég benda á "open source" samfélagið í heiminum sem ágætis mótrök. Annað dæmi eru fyrirtæki sem fara eftir s.k. straumlínuhugsun, Toyota þar fremst í flokki, þar sem allir samningar byggja á "Win-Win-Win", þar sem markmiðið er raunverulega að allir aðilar hagnist á samningnum, samningsaðilarnir tveir og samfélagið sem þriðji aðili.
    * Bankaleynd myndi heyra sögunni til. Þetta er sjálfsagt einhver stærsta hindrunin í vegi þessarar hugmyndar

Stóra spurningin

Ég held að stóra spurningin hér er sú, munu menn meta það svo að hagsmunir þjóða og samfélaga af gegnsæi og stöðugleika sé ríkari en hagsmunir fyrirtækja og einstaklinga af því að nýta sér leyndar upplýsingar til að byggja upp fyrirtæki og samfélög. Persónulega held ég að sé búið að svara þessari spurningu nú þegar, þar sem Toyota er annars vegar. Þegar þessari kreppu lýkur verður það fyrirtæki líklega lang stærsti bílaframleiðandi heims. Og það var ekki byggt upp á leynimakki og "win-lose" samningum. Svo mikið er víst.


Full mikið tekið upp í sig?

Las mér aðeins til um þessa rannsókn, og eins og ég bjóst hálfpartinn við þá er hún þannig hönnuð að hún getur ekki sannað að paracetamól sé orsakavaldur, væntanlega út af því að ekki er sýnt fram á að sé ekki undirliggjandi stýribreyta sem veldur auknum líkum á astma OG aukinni neyslu á paracetamól. Þetta hljómar fyrir mér nokkuð svipað og rannsókn sem var gerð fyrir nokkrum árum, í Chicago minnir mig,  og sýndi fram á að aukin ísneysla eykur glæpatíðni. Nú, eða þangað til menn föttuðu að hækkað hitastig eykur árásargirni fólks, OG löngun þess í ís...


mbl.is Paracetamol getur orsakað astma hjá börnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útilega um helgina

Að veiðumJæja, þar kom að því að við komum okkur í útilegu með Silju systur Snjólaugar, Arnari og stelpunum þeirra tveimur, Maríu Mist og Emmu Björt. Skruppum í Skorradal, komum í hálfskýjuðu veðri um miðjan laugardaginn, en svo létti smám saman upp, og endaði með að vera heiðskýrt og frábært veður um kvöldið, og svo var áframhald á blíðunni í dag. Þá var haldið í sund í Borgarnesi, snætt í þeim ágæta söluskála Hyrnunni, og svo haldið inn í Hvalfjörð. Þar skildu leiðir, og Arnar og Silja héldu í bæinn með tvær þreyttar stelpur, en við fórum í göngutúr í botni Hvalfjarðar, þar sem Stefán Steinar veiddi fullt af gúrafiskum í Botnsá, og við grilluðumst í 20 stiga hita.

Sem sagt mjög fín helgi, og góð byrjun á fríinu. 


Orðinn atvinnurekandi

Jæja, þá er maður formlega orðinn atvinnurekandi. Minn síðasti dagur hjá Calidris var í dag, og næstu mánuðir munu fara í að koma nýja fyrirtækinu, Spretti þróun ehf, á almennilegan skrið. Já, fyrir þá sem hafa áhuga, og ekki vissu, þá var ég að stofna fyrirtæki með tveimur félögum mínum, þeim Pétri Orra Sæmundssen og Petar Shomov. "Agile þróun, þjálfun og fræðsla" eru einkunnarorðin hjá okkur, og það er nákvæmlega það sem við viljum gera. Og byrjunin lofar nokkuð góðu, það virðist vera orðinn þó nokkur áhugi á aðferðum sem falla undir Agile hattinn, og þá sérstaklega Scrum. Við erum a.m.k. búnir að fylla námskeiðið með Ken Schwaber (4 sæti laus núna eftir að við fengum heimild til að fjölga um 10 í viðbót). Svo er bara að drífa sig á ráðstefnuna sem haldin er í samhengi við námskeiðið...

http://sprettur.is 

 

 


Falleinkun í siðferði

Valgerður sýnir hér af hverju Framsókn er ekki lengur við völd, verulegur skortur á siðferði. Efnahagur og stundarhagsmunir eru ekki allt. Það að gera rétt, og vera ábyrgur þjóðfélagsþegn, ekki bara sem íslendingur heldur sem jarðarbúi er ekki síður mikilvægt. Reynsla margra framsæknustu fyrirtækja heims hefur sýnt að virðing gagnvart einstaklingnum og umhverfinu ber gríðarlega ávöxtun til lengri tíma litið. Rio Tinto er hinn póllinn. Engin virðing gagnvart einstaklingum og umhverfinu, stundarhagsmunir og gróði skiptir öllu máli. 
mbl.is Valgerður Sverrisdóttir undrast ummæli iðnaðarráðherra um Rio Tinto
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins

Öll él birtir um síðir. Þó Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin hafi ekki verið helstu talsmenn fyrir afnámi stóriðjustefnunnar, þá vonandi átta þau sig á undiröldunni í þessum málum, og slá þessa stefnu af. Það þarf að gerast með afgerandi hætti, það að segja að þetta séu "sveitastjórnarmál" virkar ekki.

En, fyrst þurfa þau að ná saman um stjórn. Og vonandi verður siðferðisvitund þeirrar stjórnar hærri en þeirrar fráfarandi.

 


mbl.is Ekki grundvöllur fyrir áframhaldandi samstarfi stjórnarflokkanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atvinnuöryggi í Ríkisstjórn

Var glaður á laugardagskvöldið, þar til ég leyfði mér að sofna um hálf eitt. Vaknaði aftur við vondan draum um 4 aðfaranótt sunnudags. Og sá vondi draumur fór því miður ekki í burtu. Nú er bara spurningin, hversu mikið sama er forystumönnum Framsóknar um flokkinn, og hversu mikið þrá þeir völd, atvinnu og síðast en ekki síst, hærri eftirlaun. Kemur í ljós á næstu dögum.

Um Ríkisborgararétt

Hef aðeins fylgst með umræðunni um mál tengdadóttur umhverfisráðherra, og meðal annars sá ég viðtal Helga Seljan við hana. Annað hvort er Jónína fyrsta flokks lygari, eða hún er að segja sannleikann. Ég er á því síðara. Ég held að hún hafi ekki "kippt" í neina spotta. En ég held líka að hún hafi ekki þurft þess. Það var nóg að nafnið hennar var tengt þessari ágætu stúlku til að nefndarmenn í allsherjarnefnd sæju það að þarna var einkavinur tengdur málinu sem þurfti á sérstakri fyrirgreiðslu að halda. Því það er nákvæmlega menning sjálfstæðis og framsóknarmanna. Þeir sjá um sína. Þeim er nokk sama um grundvallarreglur lýðræðisþjóðfélags, nema rétt þeim sem duga til að halda þeim að kjötkötlunum.

Það er nákvæmlega þessi hugsun sem réði ferðinni þegar Davíð hét einkavini sínum G.W.Bush stuðningi í hans málum. Og sá greiði gagnaðist nákvæmlega jafn lengi og Davíð í embætti. Sama hugsun réði ferðinni þegar sjálfstæðismenn á Suðurlandi kusu Árna nokkurn Johnsen í annað sæti í prófkjöri. Árni hefur alltaf verið góður í að sjá um sína, hvaða máli skiptir það þó maður geri smá  tæknileg mistök?


Darren Dalcher - Reflections on Agile Project Management

Fór á ágætis fyrirlestur í dag með Darren Dalcher um Agile project management. Hann minntist meðal annars nokkuð mikið á XP, og það í þó nokkuð jákvæðu ljósi. Reyndar var mælingin mest LOC, sem ég er nú ekki beint hrifinn af, en jákvæð umfjöllun eigi að síður.

Hann kom aðeins inn á "agile project failures". Hann nefndi m.a. kerfi þar sem var þróað rosa fínt kerfi til að taka við pöntunum á netinu, kerfið fór í gang með pompi og prakt, og keyrði bara fínt. Nokkru síðar spyr einhver yfirmaður hvernig gangi með nýja kerfið. Jújú, gengur fínt, komnir með nokkur þúsund pantanir. "Já, og hvað erum við að gera með þær"?? Og varð fátt um svör, því það hafði að mestu leyti gleymst sá partur að það þyrfti að uppfæra kerfin/ferlin sem unnu úr pöntunum.

Það sem gerist þarna er að menn týna sér í tæknilegum kröfum, líklega í þessu tilfelli skilgreindar af fólki sem eingöngu hefur með pantanir að gera. Menn gleyma viðskiptalegu kröfunni, sem er að afgreiða sem flestar pantanir sem hraðast. Það er ekki nóg að taka við pöntunum, það þarf að afgreiða þær til viðskiptavina. 

Þetta kemur inn á eitt sem ég hef verið að tala um í nokkurn tíma, og kemur úr Straumlínu hugbúnaðarþróun (Lean Software Development), og það er þörfin á að gera samninga í kring um viðskiptaleg markmið í stað tæknilegra krafna. Eitt af því sem er afar undarlegt við að gera samninga í kring um tæknilegar kröfur, er að slíkar kröfur eru augljóslega bundnar af þekkingu og hugmyndaflugi þeirra sem þær skrifa. Ennfremur, þá eru þær yfirleitt skrifaðar miðað við stöðu tæknimála þess tíma.

 Með öðrum orðum, þá tekur þessi aðferðafræði ekki tillit til þess að 1) eftir því sem þróun á hugbúnaði heldur áfram, koma nýjir tæknilegir möguleikar í ljós og 2) þekking þeirra sem þróa kerfið verður mjög fljótlega mun dýpri heldur en þeirra sem skrifuðu upprunalegu kröfurnar, sem getur í mörgum tilfellum leitt nýjar og betri leiðir að viðskiptamarkmiðinu í ljós. Þetta gerist hins vegar ekki nema þeir sem vinna að hugbúnaðarþróuninni VITI hvert endanlega markmiðið er. Það er, viðskiptalega markmiðið. Hitt skiptir í raun afar takmörkuðu máli þegar öllu er á botninn hvolft.

 


Vélin að hökta í gang

Það virðist vera að vöðvavélin sé að hökta í gang aftur. Eftir leiðindavetur meiðsla og pesta, þá gerði ég fína ferð á Esjuna í gær, Laugardag, með félögum mínum í Calidris Alpina. Fórum upp á Kerhólakamb og niður Þverfellshornið, samtals um 11 km skv GPS tracker. Smá harðsperrur í morgun, en hafði mig samt út og skokkaði 6,5 km. Það er meira en í langan tíma. 17km að baki þessa helgina, ásamt 800m hækkun/lækkun. Nú er bara að fara ekki af geyst af stað, eins og hefur verið mín von og vísa í vetur...

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Guðlaugur Stefán Egilsson

Höfundur

Guðlaugur S. Egilsson
Guðlaugur S. Egilsson
Guðlaugur Egilsson er tölvunörd með gráðu og smá áhuga á pólitík. Síðastliðin ár hefur hann líka sést hlaupandi á ýmsum stöðum, og vonast til að áframhald verði á því. Hér gætu því birst í bland hugleiðingar um líðandi stund og pælingar um hugbúnaðargerð, hlaup og tæknimál. 
Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • ...gulli_small
  • IMG_9379

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband